Erlent

Baðst afsökunar á liðhlaupi

Bandaríkjamaðurinn Charles Jenkins baðst afsökunar í gær á liðhlaupi sínu árið 1965 áður en hann fór frá Bandaríkjunum til Japan, þar sem hann býr nú. "Ég brást bandaríska hernum, bandarísku ríkisstjórninni og olli fjölskyldu minni vandræðum," sagði Jenkins. Hann sagðist hafa lifað við erfiðar aðstæður í Norður-Kóreu. Þótt hann hafi kennt ensku og birst í áróðursmyndböndum kommúnista sagðist hann aldrei hafa verið heilaþveginn. Einnig fordæmdi hann Kim Jong-Il, leiðtoga Norður-Kóreu og kallaði hann illmenni. Jenkins dvaldist á bernskuheimili sínu í Norður-Karólínu ásamt japanskri eiginkonu sinni og tveim dætrum og hitti þar fjölskyldu sína í fyrsta skipti í fjörutíu ár. Hann var 24 ára gamall liðþjálfi í her Bandaríkjanna í Suður-Kóreu þegar hann yfirgaf herdeild sína og gaf sig fram við Norður-Kóreumenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×