Erlent

Úrskurður hindrar framsal

Þýski stjórnlagadómstóllinn úrskurðaði í gær að maður sem grunaður er um tengsl við al-Kaída skyldi ekki framseldur til Spánar þar sem evrópska handtökutilskipunin, sem framsalsbeiðnin byggði á, bryti í bága við þýsku stjórnarskrána. Dómstóllinn Að þessari niðurstöðu komst eftir að lögmenn Mamoun Darkazalni, sem hefur bæði þýskt og sýrlenskt ríkisfang, kærðu fyrirhugað framsal hans. Á Spáni er honum stefnt fyrir rétt vegna gruns um að hafa verið viðriðinn undirbúning hryðjuverkanna í Madríd í mars í fyrra. Málið var álitið prófsteinn á evrópsku handtökutilskipunina, sem tók gildi í Evrópusambandslöndunum í fyrra, en hún er meðal helstu ráðstafana sem Evrópuríkin náðu samkomulagi um að grípa til í nafni hryðjuverkavarna. Darkazanli er með hreina sakaskrá í Þýskalandi og rekur fyrirtæki í Hamborg, en eftir árásirnar á Bandaríkin 2001 og árásirnar í Madríd birtist nafn hans á lista yfir grunaða. Bandarísk yfirvöld telja fyrirtæki Darkazanli vera yfirvarp til fjármögnunar hryðjuverka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×