Innlent

Ritstjóri Læknablaðsins rekinn

Eigendur Læknablaðsins hafa ákveðið að skipa nýja ritnefnd og þar er ekkert pláss fyrir ritstjóra blaðsins til tólf ára.
Eigendur Læknablaðsins hafa ákveðið að skipa nýja ritnefnd og þar er ekkert pláss fyrir ritstjóra blaðsins til tólf ára.

Vilhjálmur Rafnsson hefur verið leystur frá störfum sem ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins. Stjórnir Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur hafa ákveðið að skipa nýja ritnefnd fyrir blaðið og að Vilhjálmur verði ekki hluti af henni.

Deilur hafa staðið um störf Vilhjálms síðan harðorð grein Jóhanns Tómassonar læknis um Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og störf hans á Landspítala háskólasjúkrahúsi birtist. Fjórir af fimm ritnefndarmönnum sögðu af sér og Kári Stefánsson krafðist þess að Vilhjálmur yrði rekinn.

Nú hafa stjórnir Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur sem eiga blaðið, ákveðið að skipa nýja ritnefnd og þar er Vilhjálmur í fyrsta sinn í átján ár ekki meðal ritnefndarmanna.

Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að Vilhjálmur hafi ekki verið rekinn. Það hafi einfaldlega verið tekin ákvörðun um að skipa nýja ritnefnd þar sem öll ritnefndin nema Vilhjálmur hafi sagt af sér og að Vilhjálmur hafi ekki verið hluti af þeirri lausn sem menn sáu við þeirri stöðu sem komin var upp. Vilhjálmur segist ekki getað litið öðru vísi á þetta en sem brottrekstur og það hafi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands í raun staðfest við sig í tölvubréfaskrifum. Þá hafi sér verið sagt að búið sé að bjóða Jóhanni Björnssyni lækni stöðu ábyrgðarmanns en hann er einn ritnefndarmanna sem sögðu sig úr nefndinni vegna greinarinnar um Kára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×