Erlent

Búa til svartan lista yfir félög

Frakkar hyggjast búa til og birta opinberlega svartan lista yfir flugfélög og lönd sem eiga lélega sögu í flugöryggismálum. Félögunum sem rata á listann verður ekki leyft að lenda á flugvöllum í Frakklandi. Ágústmánuður hefur verið hrikalegur. Fjórar farþegaflugvélar hafa hrapað eða nauðlent. Í Toronto í Kanada fór betur en á horfðist og allir komust lífs af þegar farþegavél lenti úti í skurði í tilraun til lendingar í slæmu veðri. 40 fórust í Perú í gær með vél perúska ríkisflugfélagsins TANS, 121 lést þegar vél frá kýpverska flugfélaginu Helios fórst 14. ágúst og 160 manns fórust tveimur dögum síðar þegar kólumbísk farþegavél hrapaði í Venesúela. Þetta er versti mánuðurinn í flugi síðan í maí árið 2002 þegar þrjár vélar hröpuðu og 485 manns fórust. Almenningur í Frakklandi og sjálfsagt víðar um heim hefur áhyggjur af þessu og hefur ásakað flugmálayfirvöld um að miðla ekki öllum þeim upplýsingum sem eru fyrir hendi. Samgönguráðherra Frakklands, Dominique Perben, lýsti því yfir í dag að frönsk stjórnvöld hygðust ganga í málið á undan Evrópusambandinu og áður en langt um liði yrði birtur listi yfir flugfélög sem ekki væru talin örugg og þau fengju ekki að fljúga til og frá Frakklandi. Yfirmaður samgöngumála í Evrópusambandinu, Jaques Barrot, sagði í síðustu viku að Evrópusambandið hefði í hyggju að búa til sameiginlegan gagnagrunn og upp úr honum svartan lista yfir flugfélög sem rækju vélar sem ekki uppfylltu ströngustu öryggisskilyrði. Evrópuþingið á þó eftir að greiða atkvæði um tillöguna en búast má við að vinna við grunninn hefjist seint á þessu ári eða snemma á því næsta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×