Erlent

Að minnsta kosti sjö látnir

Minnst sjö manns létu lífið þegar fellibylurinn Wilma gekk yfir Júkatan-skaga í Mexíkó um helgina. Bylurinn stefnir nú í átt að suðurhluta Flórída. Enn ein hitabeltislægðin hefur myndast í Karíbahafi.

Mikil eyðilegging blasir við í strandbænum Cancun í Mexíkó þar sem fellibylurinn Wilma gekk yfir. Bærinn er umflotinn vatni og fjöldi heimila og hótela hefur eyðilagst og er rafmagnslaust á stóru svæði. Þúsundir ferðamanna eru enn strandaglópar á staðnum og hafast við í neyðarskýlum og bíða þess að veðrið gangi niður. Matur og lyf hafa verið sendir til bæjanna Cancun og Playa del Carmen, sem urðu hvað verst úti í óveðrinu á Júkatan-skaga, en margir, aðallega gamalmenni, eru hjálparþurfi.

Enn ein hitabeltislægðin hefur nú fæðst í Karíbahafi, skammt frá Haítí. Nú dugar hins vegar ekki lengur latneska stafrófið til, við að gefa lægðunum karlmanns- og kvenmannsnöfn, því í fyrsta skipti frá því byrjað var að gefa þeim nöfn með stöfum frá A til W, verður að nota gríska stafrófið og hefur lægðin við Haítí verið nefnd Alfa.

Hún er 22. hitabeltislægðin á svæðinu í haust, sem er mesti fjöldi frá því byrjað var að skrá þær fyrir 150 árum. Athygli vekur að fellibylurinn Wilma sveigði skyndilega til norðausturs, og stefnir nú að suðurhluta Flórída og segir Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur, að það sé vegna stöðu annarra veðurkerfa á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×