Innlent

Hugleiða flutning til útlanda

Hilmar Veigar Pétursson sem er framkvæmdastjóri CCP, framleiðanda EVE Online tölvuleiksins, segir fyrirtækið íhuga í fúlustu alvöru að flytja alla starfsemi sína úr landi. CCP er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins og eitt fárra sprotafyrirtækja sem náð hefur að fóta sig á erlendum mörkuðum.
Hilmar Veigar Pétursson sem er framkvæmdastjóri CCP, framleiðanda EVE Online tölvuleiksins, segir fyrirtækið íhuga í fúlustu alvöru að flytja alla starfsemi sína úr landi. CCP er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins og eitt fárra sprotafyrirtækja sem náð hefur að fóta sig á erlendum mörkuðum.

Hugbúnaðar­fyrir­tækið CCP hugleiðir að flytja alla starfsemi sína úr landi vegna erfiðra rekstraraðstæðna, sérstaklega hvað varðar sterka stöðu krónunnar.

Í húfi eru 80 störf, 60 hjá CCP og 20 hjá Símanum, en CCP framleiðir tölvuleik að nafni EVE Online sem spilaður er á heimsvísu.

Búist er við að velta fyrir­tækisins á þessu ári nemi um milljarði króna, en hugbúnaðar­útflutningur þess nemur fimmt­ungi af heildarútflutningi hug­búnaðar héðan.

Forsvarsmenn fyrirtækis­ins hafa hingað til ekki kvartað mikið yfir aðstæðum hér, en hafa orð á vangaveltum sínum í nýrri úttekt tímaritsins Tölvuheims.

"Við fengum einu sinni 1.500 krónur fyrir hverja áskrift, en fáum 900 krónur núna," segir Hilmar Veigar Pétursson, fram­kvæmdastjóri CCP og vísar þar til gengisþróunarinnar. Hann segir fyrirtækið ekki hafa sett sér ákveðin tímamörk um hvenær gefist verði upp á aðstæðum hér, en verið sé að reikna út muninn á rekstrarkostnaði hér miðað við það sem fyrirtækinu hefur verið boðið annars staðar.

"Fyrirtækjum eins og okkar er víða gert hátt undir höfði, svo sem í Montreal í Kanada og á eynni Mön líka," segir Hilmar, en Mön hefur ítrekað haft samband við fyrirtækið með það í huga að lokka það úr landi.

Ýmsar ívilnanir eru í boði, svo sem endurgreiðsla þróunarkostnaðar, afsláttur á aðstöðugjöldum og skattaívilnanir. "Reyndar eru flest­ir staðir betri en Ísland hvað þetta varðar, en hér er ekkert slíkt í boði."

Hilmar vísar til þess að gjarnan séu höfð uppi stór orð um upplýsingasamfélagið og upp­byggingu hátækniiðnaðar hér á landi, en svo virðist lítið verða úr aðgerðum til að laða að, eða halda slíkri starfsemi í landi.

"Hér hefur vissulega verið stutt við ýmsa atvinnustarfsemi, svo sem fiskiðnað og orkufrekan iðnað, en menn virðast ekki láta gerðir fylgja­ orðum hvað þetta varðar," segir hann og gantast með að fyrirtækið sé nýflutt af Klapparstíg í Reykjavík yfir á Grandagarð og því í góðri æfingu við að flytja. "Þeir flutningar tóku ekki nema fjóra daga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×