Innlent

Álftanes ekki uppi á borðinu

"Við vorum bara að koma af rólegum fundi skipulagsnefndar þegar ég heyrði þetta í fréttum," segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri á Álftanesi, um ummæli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra um að vinna sé hafin um að athuga flutning Reykjavíkurflugvallar út á Álftanes. "Mér finnst þetta óskaplega skrítin vinnubrögð, að demba sér út í einhverja vinnu sem ég hélt að væri ekki uppi á borðinu. Þessi hugmynd hefur ekki fengið neina formlega umfjöllun hér," segir Guðmundur og bendir á að fyrir 35 árum hafi því verið lýst yfir að hugmynd um flugvöll á Álftanesi væri úti af borðinu. Hann bendir á að á Álftanesi sé oft vestanvindur með öldugangi og líklega þyrfti að loka flugvelli þar nokkra daga á ári vegna sjógangs. Guðmundur segist vilja sjá Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er, en eftir tuttugu ár sé hægt að flytja hann til Keflavíkur. Á mánudagskvöld verður haldinn opinn fundur um endurskoðun aðalskipulags Álftaness og segir Guðmundur að hann eigi alveg eins von á því að flugvallarmálið verði rætt eftir útspil Sturlu Böðvarssonar. "En ég vona að það drepi ekki á dreif aðalatriðum okkar, sem lögð hefur verið mikil vinna í."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×