Innlent

Margir urðu strandaglópar

Allt innanlandsflug lá niðri í gær vegna vonskuveðurs á Suður- og Vesturlandi. Rúmlega 300 farþegar sem áttu bókað flugfar frá Reykjavík til Akureyrar, Egilsstaða eða Ísafjarðar urðu að fresta ferðum sínum. Einnig áttu rúmlega þrjú hundruð farþegar bókað far til Reykjavíkur þannig að margir sátu veðurtepptir á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Einn þeirra sem misstu af fluginu var Sturla Böðvarsson samgöngumálaráðherra sem staddur var á Ísafirði og átti bókað flugfar til Reykjavíkur. Samgönguráðherra greip að lokum til þess ráðs að nýta sér annan samgöngumáta og keyrði suður. Að sögn Þórðar Björnssonar, þjónustustjóra Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli, á að reyna að koma öllum á áfangastað í dag; bæði þeim sem áttu bókað í gær og eins þeim sem eiga bókað í dag. Var verið að reyna að fá aukavélar til þess þegar Fréttablaðið fór í prentun. Herjólfur komst í hann krappan vegna óveðursins en þegar hann kom að bryggju festist dekk sem hafði fokið af bryggjunni í skrúfu skipsins og lét Herjólfur þá ekki að stjórn og var næstum því búinn að reka afturendann í klappirnar. Það tókst að afstýra þeim árekstri með snarræði og það var svo Lóðsinn, dráttarbátur þeirra eyjarskeggja, sem kom Herjólfi heilum í höfn. Að sögn lögreglu er ljóst að illa hefði farið hefði afturendinn rekist í klappirnar og skemmdir hefðu orðið verulegar. Að sögn Þorsteins Jónssonar veðurfræðings var víða allhvasst og fór vindurinn til dæmis upp í 46 metra á sekúndu á Hafnarfjalli. Allhvasst var einnig á Suðurnesjum og var lögreglan í Keflavík kölluð út þar sem þakplötur fuku af nýbyggingu í Vogum. Veðrið var mun betra á norðanverðu landinu en sunnan- og vestanverðu. Að sögn lögreglunar á Húsavík var sólarglenna og tíu stiga hiti og menn á stuttermabol.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×