Erlent

Fellibylur, skógareldar og flóð

Hundruð þúsunda íbúa New Orleans hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín en í allan dag hafa verslunareigendur neglt fyrir glugga  og sandpokum verið staflað til að varna skemmdum þegar fellibylurinn Katarína skellur á. Stór hluti borgarinnar er undir sjávarlínu. Bylurinn stefnir í að verða af stærðargráðu fimm, sem er hæsta stig, en aðeins þrír fellibyljir af þessari stærðargráðu hafa gengið yfir Bandaríkin frá því 1851. Í Portúgal syrtir enn í álinn, en þar kviknuðu sex nýir skógareldar í gær. Fimmtán hafa týnt lífi í eldinum, flestir slökkviliðsmenn. Þúsundir hektara skóglendis hafa orðið eldinum að bráð og tugir heimila. Talið er að brennuvargar hafi kveikt dágóðan hluta eldanna og hafa hundrað tuttugu og sex meintir brennuvargar verið handteknir á þessu ári. Annars staðar í Evrópu er flóðavatn að hverfa og hreinsun hafin. Skemmdirnar eru víða mjög miklar og er talið að þær nemi yfir sextíu milljörðum króna bara í Sviss. Talið er að fjörutíu hafi farist í flóðunum. Í Týról var í dag unnið að því að moka burtu drullu sem flóðin höfðu skilið eftir sig, en þúsundir sjálfboðaliða eru við störf á flóðasvæðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×