Innlent

Vilja framhaldsskóla í Borgarnes

Bæjarstjórn Borgarbyggðar stefnir að því að funda með rektor Háskólans á Bifröst og skólastjóra Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi um möguleika á að koma upp framhaldsskóla í Borgarnesi. Málið er á byrjunarstigi en þó hefur hugmyndin verið rædd við einhverja þingmenn kjördæmisins. Helga Halldórsdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir að þetta hafi áður verið rætt á síðasta kjörtímabili en þá hafi verið ákveðið að aðhafast ekkert í bili. Nú sé þessi umræða aftur að fara af stað. "Það er mikill áhugi fyrir þessu hjá fólki í sveitarfélaginu," segir Helga. "Í heild eru þetta 120-150 unglingar héðan sem eru utan héraðsins í námi." Helga segir ýmsar ástæður fyrir því að áhugi á framhaldsskóla í Borgarnesi hafi aukist á ný. Verið sé að gera vaxtarsamning við stjórnvöld og búist sé við mikilli fjölgun á svæðinu á næstu árum. Þá sé aðsókn í framhaldsnám að aukast og nú séu fimmtíu nemendur á biðlista í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×