Innlent

Óstundvísin á sér langa sögu

Icelandair hefur svo mánuðum skiptir verið með óstundvísustu flugfélögum Evrópu. Upplýsingafulltrúinn segir félagið hins vegar vera í mjög góðum málum. Icelandair var óstundvísasta flugfélag Evrópu á flugleiðum innan Evrópu á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt nýútkominni skýrslu Sambands evrópskra flugfélaga. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að þetta hefði enga þýðingu fyrir orðspor Icelandair af eftirfarandi ástæðu: "ef listi yrði birtur aftur í tímann væri félagið í góðum málum." Þessi ummæli Guðjóns eru mjög athyglisverð, ef skoðaðir eru stundvísilistar aftur í tímann. Þannig var Icelandair í öðru sæti á óstundvísilista yfir evrópsk flugfélög hvað varðar komutíma á fyrsta fjórðungi þessa árs og í 20. af 27 félögum yfir brottfararstundvísi. Og ástandið lagast ekkert ef litið er á óstundvísi í fyrra. Þá var Icelandair óstundvísasta flugfélag Evrópu þegar litið er til komutíma og það fjórða óstundvísasta þegar kom að brottförum. Félagið hefur á undanförnum 18 mánuðum verið eitt allra óstundvísasta flugfélag Evrópu og þess athyglisverðari eru ummæli Guðjóns sem vitnað var til hér að framan og ennfremur það sem haft var eftir upplýsingafulltrúa Icelandair í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær um að Icelandair hefði í gegnum tíðina staðið sig vel hvað stundvísi varðar og oftar en ekki verið í einu af efstu sætunum í þessum könnunum. Þau ummæli eiga klárlega ekki við síðustu mánuði og ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×