Innlent

Íslenskir auðmenn kaupa á Spáni

Íslenskir fjárfestar hafa keypt land á Spáni fyrir rúma átta milljarða króna. Á svæðinu verður reist glæsihótel og íbúðarhús fyrir ríka Evrópubúa. Um er að ræða tvær milljónir fermetra lands í Murcia héraði á suð-austur Spáni í nágrenni en ferðamannastaðarins La Manga. Það eru Björgólfur Thor Björgólfsson, Róbert Wessmann og Burðarás sem standa að kaupunum og er kaupverðið er um 100 milljónir Evra eða um átta milljarðar íslenskra króna. Á svæðinu er áætlað að reisa hótel, auk 2500 íbúða og íbúðarhúsa, en húseignir á svæðinu verða seldar til vel stæðra Evrópubúa. Þá er einnig á teikniborðinu að á svæðinu verði byggðir golfvellir og útivistarsvæði, auk ýmisskonar íþróttasvæða. Kaupin eru fjármögnuð að einum þriðja með eigin fé og tveimur þriðju með lánsfé, en Íslandsbanki, Landsbankinn og Straumur fjárfestingabanki lánuðu fé til kaupanna. Stofnað hefur verið félag um kaupin, AB Capital, en stjórnarformaður félagsins er Þór Kristjánsson stjórnarmaður í Burðarási. Í samtali við fréttastofu sagði Þór að frá því landið var keypt fyrr á árinu hefði markaðsverðmæti þess tvöfaldast. Hann sagði að á næstu mánuðum myndu yfirvöld á Spáni staðfesta byggingarrétt á landinu. Aðspurður hvort um framtíðarfjárfestingu væri að ræða sagði Þór að litið væri til fimm til sjö ára, en það kæmi í ljós hve lengi íslensku fjárfestarnir myndu leiða verkefnið. Róbert Wessmann forstjóri Actavis hefur áður keypt land á Spáni, en fyrir um tveimur árum keypti hann, í félagi við Sindra Sindrason stjórnarmann í Actavis land á svipuðu svæði, sem var þó mun minna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×