Innlent

Væri til í að vinna kauplaust

"Mér finnst ég vera það hraustur að ég geti hjálpað til í eldhúsi," segir Theodór Jóhannesson, sem sótti nýverið um starf í mötuneyti Hrafnistu. Hann segist til dæmis geta vaskað upp og unnið önnur létt verk. Hann þekkir vinnu af því tagi af eigin raun. Árið 1938 fór hann sem hjálparkokkur á togara frá Patreksfirði, þá 13 ára. Síðan tók hann þátt í atvinnulífinu þar til fyrir 6-7 árum, að hann settist í helgan stein til þess eins að láta sér leiðast, segir hann. En hann segist vera vel frískur, þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni og hitta fólk. Hann segist strax finna mun á sér eftir skemmtilegt spjall. "Ég sé um mig að öllu leyti sjálfur nema að því leytinu að það er þvegið af mér," segir hann. "Mér finnst ekki hægt að fólk megi ekki vinna eftir sjötugt. Það er margur 75-80 ára sem gæti gert margt annað heldur en að kúldrast heima. Óneitanlega setur skerðingin á lífeyri strik í reikninginn. Ég fæ 82 þúsund krónur á mánuði en eftir skatta, skyldur og húsaleigu er ég með 50 þúsund krónur. Ég væri til í að vinna kauplaust til að fá eitthvað að gera, hreyfingu og félagsskap. "



Fleiri fréttir

Sjá meira


×