Innlent

Síminn má einn setja ADSL-skilyrði

Viðskiptavinir með ADSL-tengingu hjá Og Vodafone færa sig unnvörpum yfir til Símans til að geta horft á enska boltann, en flutningur til Símans er skilyrði þess að ná útsendingum boltans. Samkeppnisráð segir að Og Vodafone hafi ekki leyfi til að gera það sama og Síminn er að gera. Til að horfa á enska boltann í vetur þurfa áhorfendur að vera með Breiðbandið eða vera með ADSL-tengingu í gegnum dreifikerfi Símans. Því flykkjast aðdáendur boltans sem höfðu ADSL-tengingu hjá Og Vodafone yfir til Símans. Ef 365 ljósvakamiðlar hefður sýningarrétt á enska boltanum mætti Og Vodafone hins vegar ekki senda leikina út þannig að aðeins þeir sem hefðu ADSL-tengingu hjá þeim gætu fylgst með boltanum. Samkeppnisráð sendi frá sér tvær ákvarðanir í vor til að samkeppni yrði á þessum mörkuðum. Ákvörðunin sem á við Símann og Skjá einn er hins vegar ólík ákvörðuninni sem á við Og Vodafone og 365 fjölmiðla. Einar Þór Sverrisson, lögmaður Og Vodafone, segir að félagið megi ekki setja skilyrði sem þessi og í því felist mismununin sem að mati Og Vodafone sé mjög alvarleg. Þetta sé eingöngu til þess fallið að styrkja yfirburðastöðu Símans á ADSL-markaði hér á landi á grundvelli skilyrða sem samkeppnisyfirvöld hafi sett. Og Vodafone gerði athugasemd við mismuninn á ákvörðununum strax í vor og hefur Samkeppniseftirlitið eins og það heitir nú verið að fara yfir málið síðan. Einar Þór segir auglýsingar dynji á landsmönnum þar sem Síminn auglýsi að hann sitji einn að þessu og sú eftirlitsstofnun sem eigi að hafa eftirlit með málinu virðist ekki hafa burði til þess að grípa inn í atburðarásina. Og Vodafone vill meina að þeir tapi stórlega á hverjum degi sem mismununin viðgengst. Aðspuður hvort félagið ætlaði í framhaldinu að krefja ríkið um skaðabætur vegna þessa segir Einar Þórþað sé ekki útilokað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×