Erlent

Fuglaflensa stefnir til V-Evrópu

Fuglaflensan í Asíu virðist nú stefna til Vestur-Evrópu. Rússar gripu í dag til umfangsmikilla aðgerða í Síberíu til þess að hefta útbreiðslu hennar. Hingað til hefur fuglaflensan verið í afskekktum héruðum í Síberíu þar sem hún hefur drepið yfir tíu þúsund fugla. Nú hefur hún hins vegar stungið sér niður í iðnaðarhéraðinu Sjélíabinsk í Úralfjöllum sem skilja að Asíu og Evrópu. Ekki er vitað til þess að fólk hafi smitast af flensunni í Rússlandi en yfir fimmtíu manns hafa látist úr henni í Asíu. Rússar lokuðu í dag vegum í Sjélíabinsk og hófu að slátra fuglum á búum þar sem flensan hefur komið upp. Rússar segja þó að erfitt verði að hefta útbreiðslu hennar þar sem hún berist einkum með farfuglum. Talsmaður landbúnaðarráðuneytisins sagði að þeir hefðu gert rannsóknir á farfuglum og komist að þeirri niðurstöðu að þeir væru helsta orsök útbreiðslunnar. Það veit ekki á gott því á þessum árstíma leggja milljónir fugla af stað suður á bóginn áður en vetur tekur völdin í Síberíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×