Innlent

Samið á Suðurnesjum

Starfsmannafélag Suðurnesja og Launanefnd sveitarfélaga undirrituðu á föstudaginn nýjan kjarasamning sem gildir til 30. nóvember 2008. Samningurinn nær til um 450 starfsmanna sveitarfélaga og stofnana á Suðurnesjum. Á heimasíðu BSRB kemur fram að fyrir utan beinar launahækkanir sé tekið upp allt að tveggja prósenta mótframlag launagreiðenda vegna séreignarlífeyrissparnaðar launþega. Þá var í morgun undirritað samkomulag um innleiðingu nýs starfsmatskerfis fyrir starfsmenn sveitarfélaga á Suðurnesjum sem er forsenda þess að hægt sé að ganga frá kjarasamningi sem er sambærilegur við aðra kjarasamninga Launanefndar við bæjarstarfsmannafélög og aðildarfélög ASÍ. Bæði félagar í Starfsmannafélagi Suðurnesja og Launanefnd sveitarfélaga þurfa að samþykkja kjarasamninginn fyrir 23. september svo hann öðlist gildi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×