Innlent

Augnmýs sérpantaðar að utan

Augnmýs, sem notaðar eru til tjáskipta, eru mjög sérhæfð hjálpartæki og hafa fáar umsóknir borist til Tryggingastofnunar vegna slíkra hjálpartækja. Sérpanta þarf búnaðinn í hverju tilviki fyrir sig. Í fréttum Stöðvar tvö í gær sögðum við frá söfnun sem vinir Magneu Karlsdóttur, MND-sjúklings í Hveragerði, vinna að til að safna fyrir augnmús sem Magnea þarf fljótlega á að halda. Slíkar augnmýs eru ekki til hjá Hjálpartækjamiðstöðinni og segir Björk Pálsdóttir, forstöðumaður miðstöðvarinnar, að um mjög sérhæft hjálpartæki sé að ræða. Ekki sé mikil þörf fyrir augnmýs hér á landi almennt og það sé líklega vegna þess að ekki sé mikið af mjög fötluðu fólki sem þurfi á þeim að halda. Þar af leiðandi sé slíkur búnaður ekki á lager heldur þurfi að panta hann sérstaklega erlendis frá hverju sinni. Björk segir fátítt að umsóknir um slíkan búnað berist miðstöðinni en slíkar umsóknir geta tekið nokkuð langan tíma þar sem nálgast þarf upplýsingar um viðkomandi tæki frá mörgum aðilum. Björk segir enn fremur að það taki alltaf nokkrar vikur að fá pöntunina að utan. Söfnunin vegna Magneu Karlsdóttur stendur enn yfir. Söfnunarreikningurinn er í Landsbankanum á Selfossi, en búnaðurinn sem Magnea þarfnast kostar um 700 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×