Innlent

Ófaglærðir fá allt að 30 þúsundum meira

Björg Bjarnadóttir formaður Félags leikskólakennara mun krefjast hækkunar á launum félagsmanna sinna á fyrirhuguðum fundi með launanefnd sveitarfélaganna á næstunni.
Björg Bjarnadóttir formaður Félags leikskólakennara mun krefjast hækkunar á launum félagsmanna sinna á fyrirhuguðum fundi með launanefnd sveitarfélaganna á næstunni.

Ófaglærðir deildarstjórar á leikskólum Reykjavíkurborgar munu hafa tæplega 200 þúsund króna hærri tekjur fyrir störf sín á ári en faglærðir deildarstjórar innan vébanda Félags leikskólakennara. Er þetta afleiðing nýrra samninga milli Reykjavíkurborgar annars vegar og SFR, Stéttarfélags í almannaþjónustu, og Eflingar hins vegar.

Ársgamlir kjarasamningar við Félag leikskólakennara eru í uppnámi. Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, hefur látið hafa eftir sér að með þessu sé verið að sýna menntun lítilsvirðingu en fagnar því einnig að kjör ófaglærðra hafi batnað. Það megi þó ekki gerast með þessum hætti á kostnað þeirra sem hafa lagt á sig að mennta sig í faginu. Segir hún óánægjuna mikla meðal félagsmanna sinna.

@Mynd -FoMed 6,5p CP:Menntun lítils virði Með nýjum samningum Reykjavíkurborgar er verið að gera lítið úr þeim er mennta sig sem leikskólakennara að mati formanns Félags leikskólakennara. Fréttablaðið/GVA

Munurinn er enn meiri sé litið til samninga borgarinnar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Ófaglærður deildarstjóri á leikskóla í því félagi er með 243 þúsund krónur í mánaðarlaun á meðan sambærilegur faglærður deildarstjóri í Félagi leikskólakennara er með 212 þúsund. Er það munur upp á rúmar 30 þúsund krónur á mánuði eða alls 360 þúsund yfir árið.

Þó ber að hafa í huga að fólk innan SFR er með háskólamenntun þótt sú menntun þurfi ekki að tengjast kennaramenntun á neinn hátt. Félag leikskólakennara hefur þegar óskað eftir fundi við launanefnd sveitarfélaganna og segir Björg að þótt margir félagsmenn séu fjúkandi illir vegna þeirrar stöðu sem upp er komin sjái margir líka sóknafæri til að fara fram á frekari hækkanir á sínum eigin launum fyrr en áætlað var.

"Ég persónulega er bjartsýn enda þykir mér ólíklegt að launanefndin geti litið framhjá því sem gerst hefur. Munurinn á þessum nýju samningum og okkar er einfaldlega út í hött og við munum krefjast leiðréttingar. Nákvæm dagsetning er ekki komin en ég á von á að það verði fljótlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×