Erlent

Flóttinn mikli

Forsagan að því að um 250.000 þýzkir flóttamenn, þar af um 100.000 börn, lentu í Danmörku vorið 1945 er sú, að eftir því sem sókn Rauða hersins náði lengra inn í Þýzkaland - fyrst Austur-Prússland og svo Slésíu, Pommern og Berlín - flúðu fleiri þýzkir íbúar þessara svæða í ofboði, enda gengu miklar sögur um grimmdarlegar hefndaraðgerðir sovézkra hermanna á þeim Þjóðverjum sem þeir náðu til. Öll börn undir fjórtán ára aldri voru send frá stærstu borgunum. Mörg þeirra enduðu uppi í Danmörku. Í marz 1945 var svo komið, að þeir Þjóðverjar sem flúðu úr austri komust ekki lengur landleiðina í vestur þar sem Sovétherinn var kominn alla leið norður að Eystrasaltsströndinni. Flóttamennirnir voru því fluttir í öllum tiltækum skipum og bátum yfir Eystrasaltið. Yfir tvær milljónir manna, mest konur, börn og gamalmenni en einnig særðir hermenn, flúðu þannig sjóleiðina í vestur. Flóttaskipunum var stefnt á hafnir vestar í Þýzkalandi, sem enn voru á valdi Þjóðverja, svo sem Lübeck og Rostock. Þegar hafnirnar yfirfylltust og skipin urðu fyrir loft- og kafbátaárásum - sem sökktu sumum þeirra - var brugðið á það ráð að skila flóttamönnum í land í Danmörku. Af þeim um það bil 100.000 þýzku börnum sem örlögin höfðu þannig skolað til Danmerkur þegar fimm ára hernámi Þjóðverja lauk snemma í maí 1945 voru um 10.000 munaðarlaus eða höfðu orðið viðskila við foreldra sína. Á flóttanum höfðu þau mörg hver orðið fyrir hræðilegri lífsreynslu, svo sem séð foreldra sína skotna. Einnig voru í þessum hópi heilu skólabekkirnir, sem foreldrarnir vissu ekki hvað hefði orðið um. Bráðabirgðastjórnin, sem settist að völdum í Kaupmannahöfn strax eftir stríðið, lét setja alla þýzku flóttamennina í búðir, þar sem þeir dvöldu unz hægt var að senda þá til Þýzkalands, en það gerðist í flestum tilvikum á næstu tveimur til fjórum árum eftir stríðslokin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×