Innlent

Hlutur Tryggva aftur í hérað

Í Héraðsdómi. Sakborningar í Dettifossmálinu hylja andlitin. Máli Tryggva Lárussonar var vísað aftur í héraðsdóm.
Í Héraðsdómi. Sakborningar í Dettifossmálinu hylja andlitin. Máli Tryggva Lárussonar var vísað aftur í héraðsdóm.

Hæstiréttur vísaði í gær sex ára fangelsisdómi yfir Tryggva Lárussyni aftur heim í hérað. Hæstiréttur fjallaði þarna um hlut Tryggva og Óla Hauks Valtýssonar í svokölluðu Dettifossmáli. Við sama tækifæri var sex og hálfs árs fangelsisdómur yfir Óla Hauki mildaður og verður fjögur ár.

Tryggvi neitar sök samkvæmt fyrsta ákærulið, en hann snýr að skipulögðum innflutningi á um 7,7 kílóum af amfetamíni. Tryggva var þarna gefið að sök að hafa annast kaup á efninu í Hollandi en gegn þessu leiddi hann þrjú vitni sem báru að hann hefði verið í Danmörku á þeim tíma sem kaupin áttu að hafa farið fram. Þannig þykir hæstaréttardómurunum ekki stætt á öðru en að ómerkja dóminn og vísa honum aftur til meðferðar í héraðsdómi.

Ólafur Haukur hafði játað brot sín og áfrýjaði til mildunar á refsingunni. Eftir að hafa litið til þátttöku Óla í málinu sem og hegðunar hans þótti Hæstarétti viðeigandi að milda refsinguna eins og áður segir. Dettifossmálið er stærsta fíkniefnamál sem komist hefur upp um hér á landi en alls var gerð tilraun til þess að smygla 7,7 kílóum af amfetamíni og 6000 skömmtum af LSD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×