Innlent

Bankarnir tóku skellinn

Viðskiptabankar þeirra sem urðu fyrir því að stolið var úr heimabönkum þeirra bættu þeim að fullu þær fjárhæðir sem stolið var, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Um samtals rúmar tvær milljónir króna er að ræða í fjórum málum sem lögreglan í Reykjavík hefur nú til rannsóknar.

Einn maður situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Fulltrúar banka og sparisjóða efndu til fundar í gærmorgun til að fara yfir öryggismál banka og sparisjóða vegna málsins. Að sögn Guðjóns Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, hefur í kjölfar þjófnaðarmálanna verið lagður grunnur að auknum öryggisráðstöfunum fyrir viðskiptamenn bankastofnana. Þær eru í þremur þáttum. Í fyrsta lagi eru leiðbeiningareglur um hvernig best sé að ganga um öll tölvumál með tilliti til vírusvarna og aðgátar í tengslum við aðgangsorð. Í öðru lagi hafa allir bankar og sparisjóðir komið upp aukalykilorði sem viðskiptamaður þarf að nota þegar hann millifærir fjárhæð. Loks er verið að vinna að því að allir viðskiptamenn bankastofnana fái í byrjun næsta árs tæki með aðgangsorði sem breytist reglulega, jafnvel á mínútu fresti. Það þarf því að nota tækið nákvæmlega á þeirri stundu sem farið er inn í heimabankann. Það er því talið gagnast vel gegn "tróju­hestinum" illræmda, sem virðist hafa verið notaður í flestum þjófnaðarmálanna. "Heimabankarnir halda áfram að vera eitthvert öruggasta tæki til fjármálaviðskipta sem menn hafa notað," segir Guðjón. Hann bendir á að nýju öryggisreglurnar sé hægt að nálgast á heimasíðu samtakanna, www.sbv.is, og heimasíðum bankastofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×