Innlent

Fengu lægri laun en lofað var

Aðalsteinn Á. Baldursson.  Verkalýðsfélag Húsavíkur ætlar að sjá til þess að átta erlendir starfsmenn Norðlenska fái umsamin laun þó þeir séu farnir af landi brott.
Aðalsteinn Á. Baldursson. Verkalýðsfélag Húsavíkur ætlar að sjá til þess að átta erlendir starfsmenn Norðlenska fái umsamin laun þó þeir séu farnir af landi brott.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, segir að brotið hafi verið á réttindum átta erlendra starfsmanna Norðlenska á Húsavík og þeir fengið töluvert lægri laun en þeim hafi verið lofað.

Mennirnir komu til Húsavíkur fyrir milligöngu breskrar starfsmannaleigu og unnu við haustslátrun hjá Norðlenska en eru nú farnir af landi brott. Norðlenska hefur sýnt málinu skilning og er fyrirtækið nú að þrýsta á um að við fáum öll nauðsynleg gögn frá starfsmannaleigunni en við munum fylgja þessu máli eftir og sjá til þess að mennirnir fái sín laun, segir Aðalsteinn.

Verkalýðsfélag Húsavíkur og önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslum hafa varað atvinnurekendur fyrir norðan við að ráða starfsmenn í gegnum starfsmannaleigur nema tryggt sé að kjarasamningar og lög á Íslandi séu virt.

"Stéttar­félögin munu taka fast á svona málum sem miða að því að brjóta niður kjarasamningsbundin réttindi en starfsmannaleigur eru almennt á landsvísu að þverbrjóta íslenska kjarasamninga og aðbúnað um hollustuhætti," segir Aðalsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×