Erlent

Flokkur Chavez vann stórsigur

Stuðningsmönnum veifað. Hugo Chavez virtist sigurviss þegar hann greiddi atkvæði á sunnudaginn.
Stuðningsmönnum veifað. Hugo Chavez virtist sigurviss þegar hann greiddi atkvæði á sunnudaginn.

Stjórnarflokkurinn í Venesúela lýsti yfir sigri í gær í þingkosningunum sem fram fóru á sunnudaginn. Stjórnarandstöðu­flokkarnir sniðgengu kosningarnar og einungis fjórðungur kjósenda neytti atkvæðisréttar síns. Flokkur Hugo Chavez forseta er talinn hafa fengið 114 þingsæti af 167 á venesúelska þinginu og flokkar honum hliðhollir eru sagðir hafa fengið afgang þingsætanna.

Velgengni Chavez er engin furða því stjórnar­andstöðuflokkarnir ákváðu að bjóða sig ekki fram vegna gruns um að landskjörstjórn væri hlutdræg. Chavez segir sjálfur að flokkarnir hafi sniðgengið kosningarnar þar sem ósigur þeirra hafi verið fyrirsjáanlegur. Þorri kjósenda virðist hafa farið að dæmi stjórnarandstöðunnar því kjörsókn var aðeins 25 prósent. Þrátt fyrir gott gengi flokks síns sagði Ali Rodriguez utanríkisráðherra kjörsóknina hafa verið óviðunandi.

Formælandi kosningaeftirlitssamtakanna Sumate, sem njóta stuðnings Bandaríkjanna, sagði kosningarnar ólögmætar. Rodriguez vísaði þeim orðum á bug og kallaði hópinn "málaliða bandarísku ríkisstjórnarinnar". Áður hafði Chavez sagt stjórnvöld í Washington vera á bak við aðgerðir stjórnarandstöðunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×