Innlent

Óánægja með nýjan miðbæ

Skiltið fjarlægt. Bæjarstarfsmenn taka niður skilti aðgerðarhópsins aðeins fáum klukkustundum eftir að það var sett upp. Þá var annað sett upp sem gefur til kynna að tjáningarfrelsi líðst ekki á Álftanesi en það hefur fengið að standa.
Skiltið fjarlægt. Bæjarstarfsmenn taka niður skilti aðgerðarhópsins aðeins fáum klukkustundum eftir að það var sett upp. Þá var annað sett upp sem gefur til kynna að tjáningarfrelsi líðst ekki á Álftanesi en það hefur fengið að standa.

"Við létum setja upp skilti við aðkomuna að sveitar­félaginu en bæjarstjórinn lét fjarlægja það eftir nokkrar klukkustundir svo þetta er greinilega mikið átakamál," segir Berglind Libungan. Hún fer fyrir aðgerðahópi sem beinir kröftum sínum gegn skipulagstillögu bæjarstjórnar um nýjan miðbæ á Álftanesi.

"Það sem við sjáum að þessari tillögu er að það á að byggja mjög þétt og hátt þannig að útsýni verður mjög takmarkað og það er annað en Álftnesingar eru vanir. Svo er aðeins ein innkeyrsla eða gata inn í þennan miðbæ þar sem á svo að vera skóli og íbúðir fyrir aldraða og það teljum við ekki skynsamlegt. Í þriðja lagi á þetta að heita miðbær en svo er aðeins gert ráð fyrir skóla og íbúðum þarna en ekki einasta kaffihúsi eða þjónustu sem miðbær ætti nú að skarta," segir Berglind.

Nú hefur hópurinn sett upp annað skilti þar sem á stendur "tjáningarfrelsi" en svo hefur verið krossað yfir orðið. Hópurinn stóð fyrir opnu húsi á föstudag í Haukshúsum þar sem skipulagsmálin voru rædd og undirskriftum safnað til að mótmæla tillögunni en frestur fyrir kvartanir rennur út á Þorláksmessu.

Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri segir þessa gagnrýni hópsins byggða á vanþekkingu á skipulagstillögunum. "Ákveðið var að hafa byggðina þétta þarna miðsvæðis en dreifðari á jaðarsvæðum svo við göngum ekki á náttúruna og fuglalífið og byrgjum þetta fallega útsýni á Álftanesi," segir Guðmundur. "En húsin í miðbænum verða engu hærri en hæstu hús eru nú á Álftarnesi og þau eru engu hærri en gert var ráð fyrir í tillögum sem þessi mótmælendahópur stóð sjálfur fyrir. Það er rétt að ein innkeyrsla er að miðbænum enda á hann að vera frekar íbúavænn en ekki bílvænn. Þarna verður skipulagið með þeim hætti að ökumenn finna að bíllinn er ekki hafður í hávegum og hraðakstur ekki liðinn enda erfiður eins og aðstæður verða. Svo er það alls ekki rétt að engin kaffihús eða þjónustufyrirtæki eigi að vera í miðbænum. Það er einmitt gert ráð fyrir slíku þó að bæjarstjórnin ætli ekki að fara að standa í slíkum rekstri, hún hefur annað að gera en að selja mönnum kaffi og bjór," segir bæjarstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×