Innlent

Líkur á kólnandi veðri í Evrópu

Trausti Jónsson  veðurfræðingur segir mælingar á Golfstraumnum hafa staðið nokkuð stutt yfir.
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir mælingar á Golfstraumnum hafa staðið nokkuð stutt yfir.

Breytingar á Færibandinu svonefnda, hafstraumi sem ber hlýjan sjó á norðurslóðir og kaldan aftur að miðbaug, eru mun hraðari en talið var og kunna að valda stórfelldri kólnun í Evrópu, samkvæmt vísbendingum í rannsókn sem Harry Bryden, breskur haffræðingur hefur staðið fyrir.

Ralf Döscher á sænsku veður- og haffræðistofnuninni segir Bryden og kollega hans hafa mælt hafstrauma á mismunandi dýpi þvert yfir Atlantshafið allt frá árinu 1957. Litlar breytingar hafi komið fram allt til ársins 1998, en eftir þann tíma séu þær stórfelldar. Erlendir fréttamiðlar hafa svo eftir Bryden að þetta sé í fyrsta sinn sem merkja megi svo hraðar breytingar í þessa veru að þeirra verði vart á mannsævi. The Guardian hefur eftir honum að haldi þessi þróun áfram megi búast við kólnun veðurfars í norðanverðri Evrópu um eina gráðu á áratug. Um leið bendir hann á að þetta víxlstreymi hlýrri og kaldari sjávar hafi á ísöld stöðvast alveg.

Vísbendingarnar sem nú eru komnar fram renna stoðum undir kenningar um að bráðnun íshellunnar á norðurskautinu og jökla á norðurslóðum dragi úr seltu sjávar, sem verði til þess að kaldur sjór sökkvi síður og berist því ekki aftur suður undir miðbaug. Bryden bendir þó sjálfur á að niðurstöður hans sanni ekki að breyting sé að eiga sér stað heldur þurfi að stunda mælingar í mörg ár í viðbót. Fjallað er um rannsóknina í nýjasta hefti tímaritsins Nature.

Trausti Jónsson veður­fræð­ingur tekur undir að mælingarnar á hafstraumum sem vísað sé til hafi staðið nokkuð stutt yfir. Menn hafa mælt þarna botn­strauma með meiri nákvæmni en áður hefur verið gert, en eldri gögn eru gisin og menn vita ekki í raun hver náttúrulegur breytileiki þeirra gagna sem verið er að mæla er. Hann segir niðurstöður Brydens vera viðbót í hrúgu misvísandi rannsókna og allt of snemmt sé að draga af þeim ályktanir. En þeir eru hrifnir af veðurfarskrísum þarna hjá Nature og sjálfsagt vekur þetta athygli, segir Trausti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×