Innlent

Stjórnmálamenn tjá sig oftast um Baug

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er einn þeirra sem oftast hafa tjáð sig um málefni Baugs samkvæmt skýrslunni.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er einn þeirra sem oftast hafa tjáð sig um málefni Baugs samkvæmt skýrslunni.

Stjórnmálamenn eru áberandi flestir af þeim sem tjá sig um Baugsmálið í umræðuþátt­um ljósvakamiðlanna, eða 35 prósent. Þeim næstir eru einstakl­ingar tengdir starfi við fjölmiðla, en þeir koma fram í 22 prósent­um umræðuþátta.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslunni Baugsmálið í fjölmiðlum, sem Fjölmiðlavaktin ehf. gaf út í byrj­un vikunnar. Björn Bjarnason dómsmála­ráðherra er meðal þeirra sem oftast tjá sig um málið í fréttum.

Hann skipar sér þar í hóp með einstaklingum sem annaðhvort eru málsaðilar eða vinna við málflutn­inginn. Björn kemur þarna fast á hæla Gests Jónssonar lögmanns, Jóns H. B. Snorra­sonar saksóknara og Jóns Ásgeirs Jóhann­essonar, framkvæmda­stjóra Baugs.

Samhliða þessari greiningu lét Fjölmiðlavaktin IMG Gallup gera símakönnun þar sem spurt var hvað hafi haft mest áhrif á skoðanir fólks á Baugsmálinu. Þar kemur í ljós að tæp 17 prósent almennings mótuðu skoð­anir sínar út frá eigin stjórnmála­skoðunum. Skoðuð var öll fjölmiðla­umfjöllun um Baugsmálið á tíma­bilinu 10. ágúst til 18. október. Skoðaðar voru fréttir, aðsendar greinar, umræðuþættir og hvert það sem fallið gat undir hið svokall­aða Baugsmál, hvort sem um var að ræða lög­reglurannsókn, birtingu ákæra eða aðkomu stjórnmála- og fjölmiðlafólks.

"Það er athyglisvert í þess­ari greiningu að þegar kemur að prentmiðlum þá er hlutfalls­lega mun meira af aðsendu efni og skoðun­um en við eigum að venjast í grein­ingum á umfjöllun um til dæmis fjármálamarkað eða önnur viðfangsefni," segir Magnús Heimis­son, sérfræðingur hjá Fjölmiðlavaktinni.

Hann bendir á að fréttir og fréttaskýringar hafi verið 58 prósent af blaðaefni um Baugs­málið, annað efni hafi verið 42 prósent. "Við eigum því að venjast að önnur umfjöllun en fréttir sé einungis um fimmtungur," segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×