Innlent

Menntakerfið beinir ungu fólki á mölina

Anna Kristín Gunnarsdóttir "Ef 20 til 40 ára íbúa vantar, þá fækkar fólki í byggðarlaginu í framtíðinni."
Anna Kristín Gunnarsdóttir "Ef 20 til 40 ára íbúa vantar, þá fækkar fólki í byggðarlaginu í framtíðinni."

Hlutfallslega helmingi færri íbúar á landsbyggðinni eru með háskólamenntun en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í svari Halldórs Ásgrímssonar forsætis­ráðherra við fyrirspurn Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, en svörin byggjast á gögnum Hagstofu Íslands.

Anna Kristín spurði meðal annars um menntun eftir aldri í þéttbýli og dreifbýli. Í svari forsætisráðherra kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu eru tæplega 23 prósent á aldrinum 16 til 74 ára með háskólamenntun en einungis um 12 prósent í sama aldurshópi á landsbyggðinni. "Munurinn er sláandi. Á lands­byggðinni eru um 45 prósent íbúa á aldrinum 20 til 40 ára ein­vörðungu með grunnmennt­un. Á höfuðborgarsvæðinu eru 28 prósent á þessum aldri aðeins með slíka menntun," segir Anna Kristín.

Hún kveðst hafa spurst sérstak­lega fyrir um aldurshópinn 20 til 40 ára því hann standi meðal annars undir mannfjölgun. Fram kemur að á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega fleiri á þessu aldursbili en á landsbyggðinni.

"Ef 20 til 40 ára íbúa vantar, þá fækkar fólki í byggðarlaginu í framtíðinni." Anna Kristín bendir á að stefna stjórnvalda sé að fjölga störfum sem krefjast sérhæf­ingar og menntunar. "Þar sem menntunarstig er lægra er einnig lægra kaup og meiri hætta á atvinnuleysi. Niðurstaða mín er sú að menntakerfið sé stórgallað fyrst það skilar fólki út í lífið með svo litla menntun. Er það góður vitnisburður um menntakerfið þegar nálægt helmingur íbúa lands­byggðarinnar á aldrinum 20 til 40 ára er aðeins með grunnmenntun?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×