Innlent

Hvolpar bornir út við Hvaleyrarvatn

Þessi litli hundur var heppinn að Jóna Magnúsdóttir skyldi skjóta yfir hann skjólshúsi eftir að hafa fundið hann á vergangi. Frostið á þeim slóðum fór niður í allt að tíu stig í fyrrinótt og þarf ekki að spyrja að örlögum hans hefði hann hírst við vegrörið þar sem hann fannst.
Þessi litli hundur var heppinn að Jóna Magnúsdóttir skyldi skjóta yfir hann skjólshúsi eftir að hafa fundið hann á vergangi. Frostið á þeim slóðum fór niður í allt að tíu stig í fyrrinótt og þarf ekki að spyrja að örlögum hans hefði hann hírst við vegrörið þar sem hann fannst.

Hvolpar hafa verið bornir út og fundist á vergangi við Hvaleyrarvatn undanfarnar vik­ur og mánuði að sögn Jóns Sigurðssonar, hundaeftirlitsmanni í Hafnarfirði. Ung hestakona, Jóna Magnús­dóttir, fann lítinn bjargarlausan hvolp við Hvaleyrarvatn í Hafnar­firði í fyrradag.

Jóna kveðst hafa verið á ferð með hóp útlendinga á þessum slóðum þegar hún tók eftir því að dýr skaust upp úr holu við veginn. Þegar nánar var að gáð reyndist vera um lítinn hvolp að ræða, sem haldið hafði til við enda svers rörs sem liggur undir veginn.

"Ég tók hvolpinn í fangið og reið með hann heim," segir Jóna. "Hann var glorsoltinn, svo ég fór með hann á dýraspítalann í Garðabæ. Það er talið að hann sé átta vikna gamall."

Jóna hafði samband við lög­reglu, hundaeftirlitsmann og gerði jafnframt grein fyrir fundi hvolpsins á dýraspítalanum. Hvergi hafði verið grennslast fyrir um hann. Hún tók hann því heim til sín í fyrrakvöld þar sem hann var í góðu yfirlæti yfir nóttina og í gær. Hún segir eins gott að hún hafi fundið hann því í nótt sem leið hafi frostið á þeim slóðum sem hún fann hann farið niður í um 10 stig.

Jón kveðst ekki hafa tölu yfir hversu margir hvolpar hafi verið skyldir eftir. Síðast hafi hann fundið um tveggja mánaða hvolp fyrir um það þremur vikum, sem að vísu hafi verið í byggð en þvælst þar um vegalaus. Enginn hafi spurt eftir honum, svo honum hafi verið ráðstafað á gott heimili. "Við geymum hvolpa sem svona er ástatt fyrir í sjö daga," segir Jón.

"Eftir það reynum við að koma þeim á góð heimili." Spurður hvort hafi þurft að aflífa hvolpa sem hafi fundist með þessum hætti segir hann það hafa komið fyrir, hafi þeir ekki gengið heimili. Hann segir hvolpana hafa verið svanga, en engan þó svo illa farinn að þurft hafi að aflífa hann af þeim sökum. "Hundum hefur fjölgað mjög á því svæði, sem ég hef eftirlit með," segir Jón.

"Ég vil nota tækifærið og höfða til fólks um að það axli þá ábyrgð sem fylgir því að eiga gæludýr. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að nokkur láti sér detta í hug að bera út nokkurra vikna hvolp, né losa sig við hund með þeim hætti að skilja hann einhvers staðar eftir. Slíkt athæfi er aldrei réttlætanlegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×