Erlent

Brýst inn hjá sofandi fólki

Svefnherbergisþjófsins leitað. Maðurinn þykir ótrúlega bíræfinn enda virðist hann frekar sækjast eftir að brjótast inn þar sem fólk er heima við.
Svefnherbergisþjófsins leitað. Maðurinn þykir ótrúlega bíræfinn enda virðist hann frekar sækjast eftir að brjótast inn þar sem fólk er heima við.

Sænska lögreglan leitar nú um gjörvalla Svíþjóð að innbrotsþjófi sem brýst inn í svefnherbergi hjá sofandi fólki í Suður-Svíþjóð. Svefnherbergisþjófurinn er grunaður um 200 innbrot, þar af 150 í Trelleborg, en einhvern veginn tekst lögreglunni ekki að stöðva hann.

Svefnherbergisþjófurinn er vel þekktur í Svíþjóð. Hann braust inn í tugi íbúða árið 1993 og hlaut fangelsisdóm fyrir vikið. Hann hefur nú verið frjáls í fimm ár og er rökstuddur grunur um að hann hafi haldið uppteknum hætti.

Svefnherbergisþjófurinn er 42 ára. Hann hefur hlotið herþjálfun og er talinn einstaklega laginn við að læðast og komast inn í eldri íbúðir. Hann sækist eftir spennu og brýst því oftast inn í hús þar sem fólk er heima. Lögreglan telur að hann muni aldrei hætta iðju sinni.

Svefnherbergisþjófurinn var nýlega handtekinn fyrir að hafa stolið handtösku konu í Trelleborg undan rúminu meðan hún og maður hennar sváfu. Lögreglan segist ekki hafa getað haldið honum lengi inni.

"Aðferðir hans eru alltaf þær sömu, hann hefur ótrúlega getu til að opna hurðir," segir yfirmaður lögreglunnar í Trelleborg í samtali við Aftonbladet.

"Það gefur honum ákveðna tilfinningu að læðast inn hjá sofandi fólki." Eftir að maðurinn var látinn laus úr varðhaldi hvarf hann sporlaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×