Innlent

Verkefnin velta rúmum milljarði

Einar K. Guðfinnsson og Friðrik Friðriksson
Friðrik stjórnarformaður AVS sjóðsins stendur í púltinu og setur fundinn í HB Granda í gær en Einar K. Guðfinnsson situr við hlið hans.
Einar K. Guðfinnsson og Friðrik Friðriksson Friðrik stjórnarformaður AVS sjóðsins stendur í púltinu og setur fundinn í HB Granda í gær en Einar K. Guðfinnsson situr við hlið hans.

"Á þremur árum hefur AVS sjóðurinn lagt til rúmar 400 milljónir króna til 145 verkefna og óhætt er að segja að þau verkefni hafi verið að velta rúmum milljarði króna," segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra. Í gær kynnti hann starfsemi AVS sjóðsins á blaðamannafundi í HB Granda í Örfirirsey en markmiðið með þeim sjóði er að auka verðmæti sjávarafla, líkt og skammstöfunin gefur til kynna.

"Þetta sýnir okkur að sjávarútvegurinn er ekki bara, eins og menn hafa gjarnan álitið, frumframleiðslugrein heldur þvert á móti margbrotin atvinnugrein og í raun þekkingariðnaður," bætir Einar við. Styrkir hafa verið veittir til verkefna á markaðssviðum, í fiskeldi, líftækni og á tækni- og þróunarsviðum. Á meðal verkefna sem sjóðurinn hefur styrkt má nefna framleiðslu Samherja á formuðum fiskbitum, eldi á villtum þorskseiðum og eldisseiðum í Ísafjarðardjúpi sem Hraðfrystihúsið Gunnvör hefur umsjón með, geymsla og flutningur á lifandi humri sem Skinney Þinganes stendur í og vinnsla Reykofnsins í Grundarfirði á sæbjúgum. Sjóðurinn lánar að hámarki helming af kostnaði hvers verkefnis en einnig vinnur hann með öðrum sjóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×