Innlent

Bílastæðavandinn minnkar

Nýtt Bílastæðahús við Laugaveg Bílastæðahúsið rúmar um tvö hundruð bíla. Tilkoma þess dregur úr vandanum við að finna bílastæði við verslunargötuna.
Nýtt Bílastæðahús við Laugaveg Bílastæðahúsið rúmar um tvö hundruð bíla. Tilkoma þess dregur úr vandanum við að finna bílastæði við verslunargötuna.

Síðastliðinn laugardag var Laugavegurinn formlega opnaður aftur eftir endurbætur á kaflanum á milli Barónsstígs og Snorrabrautar. Við sama tækifæri var nýtt bílastæðahús opnað og rúmar það 193 bíla. Mikið kapp hefur verið lagt á að ljúka framkvæmdum fyrir desembermánuð vegna aukinnar umferðar sem jafnan fylgir jólaversluninni.

Á kaflanum á milli Snorrabrautar og Barónsstíg er búið að koma fyrir reiðhjólabraut og umferð fyrir gangandi hefur einnig verið gerð auðveldari. Fyrst um sinn verður ekki tekið gjald fyrir að leggja í bílastæðahúsinu og segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingastjóri Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, að gjaldfrjálst verði í húsið fram yfir áramót.

"Við viljum hvetja fólk til þess að nota húsið og venja það við þennan nýja stað," segir Jón Halldór. Ekki er enn búið að setja upp nauðsynlegan búnað sem þarf til að taka gjald og segir Jón að það spili einnig inn í. "Við fengum frest á að setja búnaðinn upp en vildum endilega koma húsinu í notkun sem fyrst," segir hann.

Ákvörðun um gjaldskrá verður tekin í janúar og telur Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, líklegt að gjaldskráin taki mið af hvernig nýtingin á nýja bílastæðahúsinu verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×