Innlent

Algjörlega ólíðandi munur

Mjólká. Munurinn á raforku og hitaveitu til hitunar iðnaðar- og verslunarhúsnæðis getur numið yfir 300 prósentum.
Mjólká. Munurinn á raforku og hitaveitu til hitunar iðnaðar- og verslunarhúsnæðis getur numið yfir 300 prósentum.

Raforka til hitunar iðnaðar- og verslunarhúsnæðis er mun dýrari en hitaveita til hitunar á slíku húsnæði. Raforka til húshitunar fyrirtækja er um 325 prósentum dýrari hjá Orkubúi Vestfjarða en hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er vegna þess að fyrirtæki fá enga niðurgreiðslu úr ríkissjóði.

Víðir Benediktsson, eigandi Vélvirkjans í Bolungarvík, segir að það sé algjörlega "ólíðandi" að munurinn sé svona mikill. Kristján Haraldsson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða, segir að hitaveitan sé miklu ódýrari.

"Við keppum ekki við hitaveituna. Ríkisstjórn ákvað á sínum tíma að létta byrðir af heimilunum með niðurgreiðslum en hefur ekki viljað hlusta á þau rök að það þurfi að gilda um atvinnurekstur og aðra sem kynda með rafmagni," segir Kristján Haraldsson orkubússtjóri.

Haukur Eggertsson, sérfræðingur hjá Orkustofnun, segir að húshitunartaxtar hafi hækkað um síðustu áramót þegar ekki var lengur heimilt að veita afsláttarkjör vegna þess hvernig átti að nota orkuna. Kjör fyrirtækja fyrir aðra raforkunotkun en húshitun hafi batnað, sérstaklega hjá Rarik og Orkubúi Vestfjarða. Það sé því óvíst að heildarraforkureikningur fyrirtækja hafi hækkað á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×