Innlent

Skortur á faglærðu starfsfólki

Mikil starfsmannavelta.  Lögregluskólinn útskrifar ekki nógu marga nemendur til að fylla þau skörð sem í vantar í dag.
Mikil starfsmannavelta. Lögregluskólinn útskrifar ekki nógu marga nemendur til að fylla þau skörð sem í vantar í dag.

"Við höfum ekki orðið að grípa til þessa ráðs í langan tíma en nú er skortur á faglærðu fólki á sama tíma og verið er að fjölga lögreglumönnum og því erum við í þessari stöðu," segir Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfir­lögregluþjónn í Reykjavík. Gripið hefur verið til þess ráðs að ráða menn, sem ekki hafa lokið námi í Lögregluskólanum, til löggæslustarfa þar sem skólinn útskrifar ekki nógu marga til að manna þær stöður sem nú vantar í.

Karl Steinar segir þetta vissulega vandamál sem eigi sér nokkrar skýringar. "Það hefur verið áberandi síðustu árin hversu starfsmannavelta innan lögreglunnar er mikil. Margir sem útskrifast úr Lögregluskólanum starfa aðeins í lögreglunni í stuttan tíma og jafnvel eru dæmi um að menn sem ljúka skólanum fari strax til annarra starfa eða náms en hefji ekki störf sem lögreglumenn."

Karl Steinar segir þetta þurfa að rannsaka enda virðist ungt fólk líta fremur á störf í lögreglunni sem skammtímastarf ólíkt því sem áður var þegar algengt var að lögreglumenn störfuðu sem slíkir allt sitt líf. "Þetta eru ekki illa launuð störf miðað við það sem gengur heldur er eitthvað annað sem þessu veldur og það er mikilvægt að komast að því hvað það er því það er bæði dýrt og tímafrekt að mennta lögreglumenn."

Lögregluskólinn hefur útskrifað lögreglumenn í sex ár en samt ekki nógu marga til að brúa það bil sem nú er. Í Reykjavík vantar lögreglumenn í 26 stöðugildi en Karl Steinar telur ólíklegt að á meðal umsækjenda verði fleiri en rúmlega tíu lærðir lögreglumenn. Allar aðrar stöður verði því að manna á annan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×