Innlent

Biðlistar heyra fortíðinni til

Jóhannes M. Gunnarsson segir lengri biðlista í hjartaþræðingar eiga sínar skýringar.
Jóhannes M. Gunnarsson segir lengri biðlista í hjartaþræðingar eiga sínar skýringar.

"Það er stórkostlegt að vera laus við þessa biðlistaumræðu sem heyrir í stórum dráttum til fortíðar," segir Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Í nýjum stjórnunarupplýsingum um rekstur LSH frá áramótum til október á þessu ári kemur meðal annars fram, að biðlistar eru hverfandi á flestum sviðum nema í gerviliðaaðgerðir og hjartaþræðingar.

Aðspurður um skýringar á því að einstaklingum sem bíða eftir hjartaþræðingum hafi fjölgað um fjórðung á árinu, þegar aðrir biðlistar eru á hröðu undanhaldi, segist hann hafa kallað eftir greinargerð frá yfirlækni hjartadeildar um það atriði. "Þjóðin er hægt og hægt að eldast og þar með fjölgar þeim sem eru í áhættu með hjartasjúkdóma," segir Jóhannes.

"Árangurinn af meðferð við bráðri kransæðastíflu er orðinn svo góður að mun fleiri lifa af þau áföll heldur en áður. Þeir lifa áfram með sinn hjartasjúkdóm sem krefst heilmikils eftirlits. Á síðasta ári var mikil umfjöllun um hjartasjúkdóma. Það ýtti enn undir hjartarannsóknir. Í síðasta lagi hefur ný tækni, æðamyndataka með tölvusneiðmyndatækni, verið tekin upp. Hún virðist kalla á enn frekari úrvinnslu, þar á meðal hjartaþræðingar."

Jóhannes segir forráðamenn spítalans ánægða með fjárhagsstöðu hans í ljósi þess að frá árinu 2000 hafi hann verið rekinn á sömu fjárhæð, þrátt fyrir umtalsvert aukna framleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×