Innlent

Húsið seldist á 980 milljónir

Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg. Töluverð þörf mun vera á viðgerðum.
Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg. Töluverð þörf mun vera á viðgerðum.

Reykjavíkurborg tók í gær tilboði Mark-húss ehf. í Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg. Tilboðinu, sem hljóðar upp á 980 milljónir króna, er tekið með þeim fyrirvara að borgarráð samþykki það á fundi sínum næstkomandi fimmtudag.

Framkvæmdaráð borgarinnar samþykkti tilboðið fyrir sitt leyti í gær. Átta tilboð bárust í Heilsuverndarstöðina en einn bjóðenda féll frá tilboði sínu áður en afstaða var tekin til þess. Fasteignasalar sem Fréttablaðið talaði við segja að kauptilboðið sé hátt og að Reykjavíkurborg geti vel við unað. Nýir eigendur hússins mega ekki gera hvað sem er við Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg því húsið er undir ákvæðum húsfriðunar.

Jón Halldór Jónasson, upplýsingarstjóri Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, segir að legið hafi fyrir mat á húsinu og samkvæmt því mátu fasteignasalar að töluverð þörf væri á viðgerðum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er viðgerðarkostnaður á húsinu áætlaður um tvö hundruð milljónir króna.

Möguleiki er á að byggja fjögurra hæða viðbyggingu við austanvert húsið. Forsvarsmenn Mark-húss ehf. vildu lítið tjá sig þegar haft var samband við þá. Spurðir um hvernig þeir ætluðu að nýta fasteignina og lóðina sögðu þeir að ýmsar hugmyndir væru í gangi en ekkert hefði verið ákveðið enn þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×