Innlent

Fyrirtækin ábyrgist laun starfsmanna

Unnið af kappi. Myndin er tekin á athafnasvæði Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði en þar er fjöldi erlendra starfsmanna við vinnu. Að öðru leyti hefur myndin ekkert með efni fréttarinnar að gera.
Unnið af kappi. Myndin er tekin á athafnasvæði Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði en þar er fjöldi erlendra starfsmanna við vinnu. Að öðru leyti hefur myndin ekkert með efni fréttarinnar að gera.

"Við teljum að málin komist ekki í almennilegt horf fyrr en fyrirtæki sem gera samning við starfsmannaleigur séu gerð ábyrg fyrir launum starfsmannanna," segir Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar, Sambands iðnfélaga.

Samiðn telur ótækt að ábyrgð á réttum launagreiðslum til starfsmanna sem hingað koma fyrir tilstuðlan starfsmannaleiga hvíli á starfsmannaleigunum sjálfum en ekki fyrirtækjunum sem fá starfsmennina til vinnu.

Fyrirtækjunum er gert að standa skil á sköttum og öðrum opinberum gjöldum og telur Samiðn að þeim ætti líka að vera gert að bera ábyrgð á launum starfsmanna. Ábending Samiðnar hefur verið send félagsmálaráðherra en nýlega var frumvarp til laga um starfsmannaleigur samið í ráðuneytinu.

Stefnt er að samþykkt þess fyrir jólaleyfi þingheims. "Íslensku fyrirtækin þekkja íslensk lög og kjarasamninga og það eru þau sem koma til með að njóta hagnaðarins ef verið er að flytja inn ódýrt vinnuafl. Okkur finnst því eðlilegt að fyrirtækin séu gerð ábyrg fyrir þessu og eins og í öðrum samningum geta þau svo átt endurkröfurétt á starfsmannaleiguna ef því er að skipta," segir Finnbjörn.

Í frumvarpi félagsmálaráðherra er kveðið á um að erlendar starfsmannaleigur skuli hafa fulltrúa á Íslandi sem hafi tilkynningaskyldu við stjórnvöld en fulltrúanum er hvorki gert að bera ábyrgð né hafa völd. Í því ljósi telur Samiðn enn mikilvægara að ábyrgð á launagreiðslunum hvíli á herðum fyrirtækjanna sem leigja starfsmenn af starfsmannaleigum. Í erindi Samiðnar til ráðherra segir meðal annars að það sé eindregin skoðun þess að skýr ákvæði um ábyrgð notendafyrirtækja sé forsenda þess að árangur náist og hægt verði að koma böndum á það ófremdarástand sem ríkt hefur á íslenskum vinnumarkaði síðustu misseri. Samiðn skorar því á ráðherra að tryggja slík ákvæði í lögum.

Finnbjörn A. Hermannsson er að öðru leyti ánægður með frumvarpið. "Það er margt gott í því. Það skýrir margt og með því er verið að reyna að koma böndum á markaðinn. Þarna er hins vegar augljós brotalöm sem gengur ekki upp."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×