Innlent

Lánsöm að vera á lífi

Felgulykill getur verið skaðræðis­vopn. Myndin er sviðsett.
Felgulykill getur verið skaðræðis­vopn. Myndin er sviðsett.

Lárus Már Hermannsson hefur verið dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að ráðast á fyrrverandi sambýliskonu sína með felgujárni á heimili hennar á Akranesi sunnudaginn 28. ágúst. Konunni voru einnig dæmdar 700.000 krónur í miskabætur.

Lárus, sem er 36 ára, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því atburðurinn átti sér stað. Lárusi fipaðist og lét af árás­inni­ þegar konan öskraði á hjálp, en hafði þá veitt henni alvarlega áverka. Á efri hæð hússins sváfu börn Lárusar og konunnar, 14 ára stúlka og 11 ára piltur.

Konan komst upp, þar sem stúlkan hringdi­ á Neyðarlínu. Klukkuna vantaði þá fimm mínútur í níu að morgni. Þegar lögreglu bar að garði voru þar fyrir konan og börnin, en Lárus Már var á bak og burt.

Sá lögregla strax að konan var víða meidd á höfði og blæddi mikið. Felgulykillinn fannst bak við baðherbergishurð, en þar var talsvert blóð sjáanlegt og blóðslettur á hurð, veggjum og gólfi.

Þá segir lögregla að talsvert blóð hafi verið í svefnherbergi á annarri hæð, en þar var konan þegar þeir komu. Lárus hafði rætt við dóttur sína í síma kvöldið áður og frétt að móðir hennar væri á leið á dansleik.

Um tvö ár voru síðan þau höfðu slitið samvistum eftir að hafa verið saman í tólf ár.

Um nóttina fór hann til Akraness og beið alla nóttina fyrir utan hjá konunni. Hann sá til hennar með manni um klukkan fimm um morguninn og svo þegar hún sneri aftur ein heim um klukkan níu lét Lárus til skarar skríða.

Konan varð fyrst vör við hann þar sem hún var inni á baðherbergi að bursta­ tennurnar og fékk skyndilega höfuðhögg. Árásin var hrottaleg og var konan viss um að hennar síðasta væri runnið upp. Hún hlaut marga djúpa skurði á höfðuð og áverka á vinstri hönd og handlegg sem hún reyndi að bera fyrir sig.

Læknir sagði árásina hafa verið sérstaklega hrottalega og konan sögð "sérstaklega lánsöm að látast ekki við atlöguna". Geðlæknir sem skoðaði Lárus eftir atburði taldi hann ábyrgan gjörða sinna þrátt fyrir að vera haldinn hugvilluröskun af afbrýðisemistoga. Fram kom að hann hafði átt við þunglyndi og drykkju að stríða og nokkrum sinnum reynt sjálfsvíg.

Hann fannst nokkru eftir klukkan tíu í malarnámu norðan við Hvalfjarðargöng og var þá búinn að leiða útblástur bifreiðarinnar inn um hliðarrúðu á henni. Hann var fluttur á sjúkrahús á Akranesi og svo á geðdeild í Reykjavík, en var svo úrskurðaður í gæsluvarðhald.

"Atlaga ákærða gegn Guðrúnu Lilju var ófyrirleitin og beindist gegn lífi hennar. Réð tilviljun ein því að ákærði náði ekki markmiði sínu. Á ákærði sér engar málsbætur," segir í dómi Héraðsdóms Vesturlands en hann kvað upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×