Innlent

Fjörutíu milljarða jólahátíð

Kringlan um síðustu jól. Metsala var í verslunum hérlendis um síðustu jól. Góðar líkur eru á að það met verði slegið í desember.
Kringlan um síðustu jól. Metsala var í verslunum hérlendis um síðustu jól. Góðar líkur eru á að það met verði slegið í desember.

Fjölmargt bendir til þess að jólaverslunin í ár verði með blómlegasta móti og reiknar Rannsóknarsetur verslunarinnar að Bifröst með því að veltan geti numið allt að 39 milljörðum króna. Það samsvarar viðbótarneyslu á hvert mannsbarn um tæpar 20 þúsund krónur. Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur í fyrsta sinn gert áætlun um komandi jólavertíð byggt á upplýsingum frá fyrri árum en einnig vísbendingum úr efnahagslífinu.

Fyrsta vísbendingin um að met verði slegið þetta árið er þróun veltu smásöluverslunar samkvæmt virðisaukaskattsuppgjöri. Má gera ráð fyrir að 8,4 prósenta aukningu á ársveltu miðað við síðasta ár sem þá var metár í jólaverslun miðað við núverandi stöðu.

Aðrir þættir sem litið var til var almenn greiðslukortavelta almennings auk mikils vaxtar einkaneyslu í landinu og væntingum verslunarfólks sjálfs. Jólaverslunin er mismikilvæg verslunum en gera má ráð fyrir að jafnaði að jólavelta margra sé um 20 prósentum meiri en aðra mánuði ársins.

Sérstaklega er þetta mikilvægur tími fyrir gjafavörubúðir hvers konar. Miðað við að greiðslukortavelta landsmanna um síðustu jól var rétt tæpir 35 milljarðar króna og var þá rúmum 17 prósentum hærri en árið áður gerir spá rannsóknarsetursins því ráð fyrir rúmlega tíu prósenta aukningu í viðbót nú um þessi jól.

Telja má víst að gangi spá þeirra eftir munu flestir kaupmenn kætast í lok desember þegar sölutölur mánaðarins verða kunnar enda fátt sem bendir til að neysluæði landans sé yfirstaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×