Innlent

Reykt kengúra og strútur í boði

Kengúra og jafnvel strútskjöt.
Sæþór H. Þorbergsson, veitingamaður í Stykkishólmi, ætlar að bjóða upp á kengúru, dádýr, lynghænu og jafnvel strút á jólamatseðlinum í ár.
Kengúra og jafnvel strútskjöt. Sæþór H. Þorbergsson, veitingamaður í Stykkishólmi, ætlar að bjóða upp á kengúru, dádýr, lynghænu og jafnvel strút á jólamatseðlinum í ár.

Veitingastaðurinn Narfeyrarstofa í Stykkishólmi ætlar að bjóða upp á kengúru, dádýr og lynghænu á fjögurra rétta matseðli í stað hefðbundins jólahlaðborðs á aðventunni.

"Við ætlum að leika okkur með framandi hráefni og vera með kengúru, dádýr, lynghænu og kannski strútskjöt. Við gerðum þetta líka í fyrra og buðum fólki þá að smakka dúfu í mismunandi útfærslu á aðventunni," segir Sæþór H. Þorbergsson, matreiðslumeistari á Narfeyrarstofu.

Sæþór segir að þau hjónin hafi ákveðið í fyrra að jólahlaðborðin væru komin á endastöð og ákveðið að leyfa fólki að prófa eitthvað nýtt. Þau fái hráefnið í gegnum birgja í Reykjavík og ætli að búa til fjórrétta jólamatseðil.

"Ég er nokkuð viss um að við komum til með að reykja kengúruna. Dádýrið verður aðalréttur því að við erum með svo góða steik, lund úr dádýrinu. Lynghænan verður ábyggilega milliréttur og svo eigum við eftir að búa til skemmtilegan eftirrétt sem fer vel með þessu. Við erum ekki enn dottin niður á hann," segir Sæþór. Narfeyrarstofa er í 100 ára gömlu húsi í Stykkishólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×