Innlent

Aldraðir geti búið út af fyrir sig

Halldór Ásgrímsson á miðstjórnarfundi Framsóknar.
Halldór Ásgrímsson á miðstjórnarfundi Framsóknar.

"Við höfum lagt allt of mikla áherslu á það að aldraðir búi á stofnunum en of litla áherslu á það að aldraðir geti búið í sínu eigin húsnæði og fengið þjónustu þar," sagði Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi í Kópavogi á föstudag.

Halldór talaði þar fyrir nýjum áherslum í þessum málaflokki. "Fyrir nokkrum árum þótti það sjálfsagt að margir einstaklingar byggju saman á herbergi en svo er ekki lengur. Við gerum aðrar kröfur og það er eðlilegt að við gerum þær kröfur að aldraðir geti búið út af fyrir sig," sagði Halldór.

Hann sagði enn fremur að unnið yrði að því með sveitarfélögunum að hrinda þessari þróun af stað. Halldór kallaði einnig alla þjóðina til ábyrgðar í málefnum aldraðra.

"Ríkið getur aldrei séð algjörlega um aldraða; við eigum öll aldraða ættingja og við sem þjóðfélag og sem einstaklingar berum ábyrgð gagnvart þessu fólki okkar. Að það geti gerst að fólk geti látist heima hjá sér og ekki fundist svo dögum skipti er smánarblettur á okkar samfélagi," sagði Halldór Ásgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×