Innlent

Vill frekar spennu en atvinnuleysi

Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins Halldór fór víða í ræðu sinni í gær og leitaði skýringa á litlu fylgi flokksins. Einnig sagði hann að Seðlabankinn hefði engar forsendur til að halda áfram að hækka vexti.
Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins Halldór fór víða í ræðu sinni í gær og leitaði skýringa á litlu fylgi flokksins. Einnig sagði hann að Seðlabankinn hefði engar forsendur til að halda áfram að hækka vexti.

Halldór sagði það eðlilegt að gegnið sé hátt um þessar mundir vegna þess hversu þjóðin hefur ætlað sér mikils. "Við höfum einmitt lagt áherslu á það að atvinna sé mikil og viljum við ekki frekar meiri spennu en atvinnuleysi með öllum þeim hörmungum sem því fylgir fyrir heimilin í landinu. Ef ég mætti velja þarna á milli þá vel ég frekar mikla spennu og uppbyggingu heldur en atvinnuleysi," sagði Halldór.

Hann sagðist skilja áhyggjur fólks vegna hás gengis og verðbólgu en nú væru vextir húsnæðislána að lækka og eins gengið. "Og að mínu mati er engin forsenda fyrir því, eins og sakir standa, að Seðlabankinn haldi áfram að hækka vexti um næstu mánaðamót," sagði hann.

Halldór sagðist einnig vera bjartsýnn á það að niðurstaða næðist í viðræðum um kjarasamningana svo að þeir héldust með eðlilegum hætti. Halldór leitaði skýringa á því af hverju fylgi við Framsóknarflokkinn mældist jafn lítið í skoðunarkönnunum og raun ber vitni um þessar mundir. "Það verður að segjast alveg eins og er að staða Framsóknarflokksins í skoðunarkönnunum er ekki ásættanleg."

"Er það vegna þess að við höfum staðið okkur illa?" spurði Halldór og svaraði sjálfur neitandi og taldi upp fjölmörg dæmi máli sínu til stuðnings.

"Ég tel hinsvegar að við séum sem flokkur og einstaklingar ekki nægilega stolt af okkar verkum," sagði hann sem eina af skýringunum og bætti við að Framsóknarmenn væru feimnir og hógværir en tækju þó oftast við sér skömmu fyrir kosningar.

Aðra skýringu sagði hann vera þá að Framsóknarmenn hefðu ekki komið sínum málum nógu mikið á framfæri og skýrt nægilega vel frá árangri sínum.

Hann sagði mikið liggja við að flokknum takist vel til í sveitarstjórnarkosningunum í vor því ef svo verði ekki muni menn taka því sem svo að hann sé ekki til stórræðanna líklegur í Alþingiskosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×