Innlent

Samtök atvinnulífsins ósátt við ASÍ

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að þær raddir heyrist nú meðal vinnuveitenda að rétt væri að Samtök atvinnulífsins segðu upp kjarasamningum til að losna undan þeim miklu kostnaðarhækkunum sem framundan eru að óbreyttu.
Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að þær raddir heyrist nú meðal vinnuveitenda að rétt væri að Samtök atvinnulífsins segðu upp kjarasamningum til að losna undan þeim miklu kostnaðarhækkunum sem framundan eru að óbreyttu.

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir yfirlýsingu miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um að einsýnt sé að til uppsagnar kjarasamninga muni koma að óbreyttu.

Ari segir að staða íslenskra fyrirtækja sem búa við alþjóðlega samkeppni hafi versnað gríðarlega frá því að gengið var frá kjarasamningum vorið 2004 og að firnasterkt gengi íslensku krónunnar grafi undan undirstöðum íslensks atvinnulífs. "Þessi yfirlýsing hlýtur að teljast með miklum ólíkindum ef horft er til stöðu viðræðna milli aðila og þróunar kaupmáttar í landinu, en varanleg og traust hagfelld þróun kaupmáttar hlýtur að vera það sem starf aðila vinnumarkaðarins snýst um fyrst og síðast," segir Ari í fréttabréfi SA sem birt var í gær. "Það er ekki um það deilt að forsenduákvæði kjarasamninga eru virk, einkum vegna verðlagsþróunar, þótt samningar annarra en ASÍ komi einnig til skoðunar. Engu að síður er ljóst að kaupmáttur er í sögulegu hámarki," segir hann.

Ari segir að þótt uppsögn samninga standi ekki til af hálfu vinnuveitenda sé því ekki að neita að þær raddir heyrist nú meðal þeirra að rétt væri að SA segði upp kjarasamningum til að losna undan þeim miklu kostnaðarhækkunum sem framundan eru að óbreyttu. "Ákvæði samninga um mögulega uppsögn eru nefnilega gagnkvæm," segir hann. Hann segir lánveitingar og þenslu tengda íbúðamarkaði helstu orsök verðbólgunnar. "Sú hótun vofir yfir atvinnulífinu að frekari launahækkanir leiði til enn meiri vaxtahækkana Seðlabanka, til að hemja verðbólgu, á meðan stjórnendur fyrirtækja ræða í alvöru um það hvort fyrirtækin muni halda út í 12 til 24 mánuði í viðbót," segir Ari. "Hækkun á útgjöldum fyrirtækja við þessar aðstæður er því hið mesta óráð og einungis til þess fallin að fækka störfum og auka verðbólgu. Seðlabankinn mun væntanlega hækka stýrivexti sína enn meira en ella verði aukið við samningsbundnar hækkanir í kjarasamningum, sem umsvifalaust mun hækka gengi krónunnar," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×