Innlent

Aðeins þriðjungur með sér baðherbergi

Meginmarkmið heilbrigðisáætlunar frá því 2001 náðist að mati skýrsluhöfunda. En þó þarf margt að bæta svo aldraðir geti unað jafn áhyggjulausir við sitt og heldra fólkið á þessari mynd.
Meginmarkmið heilbrigðisáætlunar frá því 2001 náðist að mati skýrsluhöfunda. En þó þarf margt að bæta svo aldraðir geti unað jafn áhyggjulausir við sitt og heldra fólkið á þessari mynd.

Af öllum hjúkrunarrýmum fyrir aldraða í landinu er einungis rúmur helmingur einstaklingsrými eða 57 prósent. Aðeins 29 prósent íbúa er með sér baðherbergi. Til samanburðar má geta að í Noregi er hlutfall einbýla 91 prósent.

Þetta kemur fram í stjórnsýsluúttekt sem Ríkisendurskoðun hefur gert á þjónustu við aldraða en skýrslan var gerð opinber í gær. Í henni er lagt til að stjórnvöld setji fram kröfur um lágmarksþjónustu á þeim heimilum sem rekin eru fyrir opinbert fé. Skortur á slíkum viðmiðunum hefur valdið því að mikill munur er á því eftir landshlutum og stofnunum hvernig þjónustu aldraðir fá.

Björgvin Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, lagði fram fyrir skemmstu fyrirspurn til Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra hvort ekki kæmi til greina að setja lög sem bönnuðu að eldri borgarar væru vistaðir tveir eða fleiri saman í rými nema ef þeir kysu svo vegna tengsla. "Hann tók því miður ekki vel í það og nú er enn verið að byggja heimili fyrir aldraða þar sem gert er ráð fyrir því að þeir búi saman í fjölbýli," segir Björgvin.

Skýrsluhöfundar leggja og til að hugað verði betur að þjónustu við elsta aldurshópinn en talsvert skortir á að næg rými séu til fyrir þann hóp. Þannig þurftu 310 einstaklingar sem eru 80 ára og eldri að bíða eftir plássi árið 2003 þó þeir væru í brýnni þörf.

Það markmið stjórnvalda að biðtími eftir plássi fyrir fólk í brýnni þörf sé ekki meiri en 90 dagar náðist, en árið 2003 var sá biðtími að meðaltali 86 dagar. Hins vegar þurfti fólk að bíða í sjö mánuði að meðaltali frá því það fór í vistunarmat og þar til að það fékk pláss. Ríkisendurskoðun leggur svo og til að heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið leggist á árarnar og byggi upp fleiri öldrunarheimili og jafni út það misræmi sem er á fjölda rýma eftir landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×