Innlent

Hið opinbera eignast kvótann aftur

Á landsfundi Landssambands íslenskra útgerðarmanna hélt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ræðu sem vakið hefur misjöfn viðbrögð stjórnmálamanna sem og útgerðarmanna. Sögðu sumir að málflutningurinn hefði borið það með sér að Samfylkingin hefði fallið frá hugmyndum sínum um fyrningarleiðina.

Ingibjörg hefur sagt þá ályktun vera á misskilningi byggða. Hvernig virkar fyrningarleiðin? Fyrningarleiðin felur það í sér að hið opinbera fái eignarheimild yfir sjávarauðlindinni aftur. Þar sem einkaaðilar eru með nýtingarrétt á henni og treysta á þann rétt við starfsemi sína verður að fara hægt í þær sakir að færa þennan rétt til hins opinbera. Fyrningarleiðin virkar þannig að veiðiheimildin myndi minnka um 3-5 prósent á ári. Það þýðir að breytingin tæki 20 til 33 ár en þá ætti heimildin að vera uppurin hjá einkaaðilunum sem öðluðust hana í því kerfi sem nú er við lýði.

Hvað er gert við þá heimild sem fyrnist?

Hún yrði seld á markaði eða uppboði. Þannig er komið í veg fyrir að menn geti grætt á því að selja eða leigja veiðiheimildirnar en nýti þær ekki sjálfir.

Hverjir eru gallar fyrningarleiðarinnar?

Margir hafa mælt gegn því að veiðiréttur sem menn hafa aflað sér af eigin rammleik sé tekinn af þeim með kerfisbundnum hætti. Telja þeir að slík aðferð muni kippa fótunum undan rekstri fjölmargra sjávarútvegsfyrirtækja og segja hana skapa mikið óöryggi sem erfitt væri að fóta sig í fyrir stærri fyrirtæki þar sem hún leiddi til stórfelldrar eignaupptöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×