Innlent

Frjálslyndir ósáttir við Samfylkinguna

Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson

Þingmaður Frjálslynda flokksins segir Ingibjörgu hafa útilokað samstarf með Frjálslyndum í ræðu sinni á landsþingi LÍÚ. Ingibjörg segir varla nokkurn flokk geta starfað með Frjálslynda flokknum.

"Eftir þetta sérkennilega útspil Ingibjargar er sú leið sem vísar á stjórn með Samfylkingunni óðum að lokast," segir Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins um ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formann Samfylkjingar, á landsþingi LÍÚ um síðustu helgi. "Við sættum okkur aldrei við að sjávarauðlindin sé í einkaeign en hvað er það annað en einkaeign ef útgerðarmenn fá óafturkræfan og ævarandi nýtingarrétt á henni eins og má skilja af ræðu Ingibjargar," segir hann.

Sigurjóni þykir sem ræða Ingibjargar hafi verið sem blaut tuska framan í landsbyggðarfólk og vitni um að flokkur hennar vilji ekki starfa með Frjálslynda flokknum. "Það lítur út fyrir það að pólitísk valdafíkn sé orðin svo mikil að flokkurinn sé til í að beygja frá fyrri stefnu til að komast undir sæng með kvótaflokkunum," segir Sigurjón.

"Með hverjum ætlar Frjálslyndi flokkurin þá að starfa? Þeir dæma sig til ævarandi stjórnarandstöðu með þessu," segir Ingibjörg Sólrún. "Samfylkingin er flokkur að þeirri stærðargráðu að hann getur ekki verið í baráttu á móti einni tiltekinni atvinnugrein og í ræðu minni vildi ég sýna að við erum tilbúin til viðræðu um ýmsar leiðir við fiskveiðistjórnunina," segir hún. Hún segir ennfremur að stjórnarsamstarf með Frjálslynda flokknum væri flestum flokkum erfitt ef Frjálslynir vilja ekki kvika frá hugmyndum sínum um fiskveiðistjórnun.

"Ég efast um að nokkur flokkur geti fallist á þeirra hugmyndir eins og þær koma af skepnunni. Og það virðist vera sem lífgrundvöllur flokksins sé þetta eina mál svo það gerir þeim nokkuð erfitt fyrir," segir Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×