Innlent

Segjast ekki hafa flutt fanga

Loftleiðir sinna ýmsum sérverkefnum en fljúga ekki með hryðjuverkamenn.
Loftleiðir sinna ýmsum sérverkefnum en fljúga ekki með hryðjuverkamenn.

"Við höfum flogið tvö til þrjú flug á ári fyrir stofnun í Bandaríkjunum sem heitir ICE og sér um flutninga á ólöglegum innflytjendum til heimalanda sinna. Meðal þessa fólks eru ekki hryðjuverkamenn enda myndum við ­aldrei taka það í mál, fyrst og fremst af öryggisástæðum," segir Guðni Hreinsson, markaðsstjóri Loftleiða, dótturfyrirtækis FL group. "Við höfum aldrei flogið fyrir leyniþjónustuna eða Homeland Security."

Guðni segir stofnunina hafa kallað til Loftleiðavélar þegar bandarísk flugfélög hafa af einhverjum ástæðum ekki náð að sinna þessum verkefnum.

Talið er að flugvélar sem flutt hafa fanga á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA hafi haft viðdvöl í Danmörku og hugsanlega hér á landi. Dagblaðið Washington Post hefur fjallað um málið undanfarna daga.

Loftleiðir hafa ásamt Air Atlanta stundað svokallaða blautleigu á flugvélum sem oft á tíðum snýst um að leigja flugvélar og áhafnir til ýmissa sérverkefna svo sem flutnings á hermönnum og ólöglegum innflytjendum. Ekki náðist í forsvarsmenn Air Atlanta vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×