Innlent

Tryggingar kosta hundruð þúsunda

Sex ára á smábifhjóli Félagarnir í GP Ísland segja hjól sem þessi ná frá fimmtíu til áttatíu kílómetra hraða á klukkustund.
Sex ára á smábifhjóli Félagarnir í GP Ísland segja hjól sem þessi ná frá fimmtíu til áttatíu kílómetra hraða á klukkustund.

Evu Dögg Þórsdóttur, upplýsingafulltrúa Sniglanna, var brugðið er hún las um sex ára dreng á fimmtíu kúbika smábifhjóli í Fréttablaðinu á laugardag. "Hafa þarf skellinöðrupróf til að keyra svo kraftmikil hjól á götum úti, klæðast leðurfatnaði og vera með móturhjólahjálm," segir Eva Dögg.

"Svona hjól má aðeins nota á lokuðum svæðum. Þau mega ekki vera á götunum þar sem þau eru bæði númerslaus og ljóslaus." Brynhildur Georgsdóttir, framkvæmdastjóri ökutækjasviðs hjá Umferðarstofu, staðfestir að prófskírteini þurfi til að nota hjól sem þetta á götunum. Tólf ára börn megi nota þau á lokuðum svæðum. Hún segir öll vélknúin götuhjól sem fari hraðar en fimmtán kílómetra á klukkustund skráningarskyld.

"Tryggingafélögin meta þessi hjól einnig stranglega. Ef menn skrá þau fá þeir iðgjöld upp á nokkur hundruð þúsund krónur."

Eva Dögg stendur ásamt Kristjáni Hafliðasyni og fleirum að félaginu GP Ísland. Markmið þess er meðal annars að setja upp og reka mótaraðir í akstursíþróttum. Eva segir félagið hafa sótt stíft í að fá leyfi til að keppa á slíkum hjólum en ekki fengið. Kristján segir að sumir hafi fengið að ­flytja­­­ hjólin inn sem leikföng en þá sé búið að takmarka hraða þeirra við þrettán kílómetra á klukkustund.

"Reynt hefur verið að flytja þrjátíu til fjörutíu hjól inn til landsins en þau hafa verið endursend því þau hafa hvorki grindarnúmer né upprunanúmer." Brynhildur segir málið í ­klemmu,­ því sérstök æfingasvæði þurfi svo hægt sé að nota hjólin löglega. Áhuga skorti hjá sveitarfélögum að koma upp slíkum svæðum og engin hér hafi hlotið viðurkenningu.

"Samgönguráðuneytið hefur lýst yfir áhuga á að ganga í málið og taka það til heildarendurskoðunar. Slíkt þarf að gerast í samráði við tryggingafélög, lögreglu, sveitarfélög og ráðuneytin sem standa að þeim sem og vélhjólafélög sem líta á þetta sem íþrótt," segir Brynhildur og bætir við að eitt af því sem þurfi að skoða sé að lækka aldur þeirra sem megi nota hjólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×