Innlent

Ætla að stöðva brotleg fyrirtæki

Í matsal starfsmanna á Kárahnjúkum. Oddur Friðriksson, aðaltrúnaðarmaður á Kárahnjúkum, segist vera með nokkur fyrirtæki undir smásjánni vegna viðskipta þeirra við starfsmannaleigur, en sum hver standi sig þó mjög vel.
Í matsal starfsmanna á Kárahnjúkum. Oddur Friðriksson, aðaltrúnaðarmaður á Kárahnjúkum, segist vera með nokkur fyrirtæki undir smásjánni vegna viðskipta þeirra við starfsmannaleigur, en sum hver standi sig þó mjög vel. Fréttablaðið/GVA

Kominn er tími á aðgerðir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar til að knýja á um umbætur hjá fyrirtækjum sem ekki upplýsa um kaup og kjör erlendra starfsmanna sinna. Þetta segir Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar, sambands iðnfélaga, en menn á hans vegum fóru um í gær og ræddu við erlenda starfsmenn sem hér eru á vegum íslensku starfsmannaleigunnar 2B ehf.

Verkalýðsfélög hafa starfsemi 2B nú undir smásjánni, en þar á bæ hafa menn meðal annars verið sakaðir um að hafa hvatt til þess að pólskir verkamenn séu barðir til hlýðni. Þorbjörn segir farið fram á umbætur komi í ljós að erlendir verkamenn fái ekki greitt í samræmi við kjarasamninga.

 "Yfirleitt eru þess mál löguð, en ef ekki er nú komið að því að við stoppum vinnustaði strax á næstu dögum, en hvar það verður gef ég náttúrlega ekki upp."

Oddur Friðriksson aðal­trún­að­ar­­mað­ur starfs­manna á Kára­hnjúk­um segir alveg ljóst að starfs­manna­leig­um með starf­semi hér fari fjölg­andi og bráð­nauð­syn­legt sé að setja lög um starf­semi þeirra.

"Leigur­nar eiga að starfa eftir ákveð­num lögum svo þær komist ekki upp með að vera með leyni­samninga í öðrum löndum og að búa sér til sínar eigin reglur á vinnu­markaði. Þessi fyrirtæki hafa nýtt sér göt í lögum. Meginhluti þeirra er frá Eystrasaltslöndunum og Portúgal, fátækum löndum Evrópu þar sem enga vinnu er að hafa. En það eiga starfsmannaleigur ekki að geta nýtt sér. Þetta fólk á að vera á sömu kjörum og hér eru við lýði og borga hér skatta og skyldur eins og hver annar," segir Oddur og telur stjórnvöld þurfa að taka af skarið um hvernig þessum málum eigi að vera háttað.

"Núna er það á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar að fylgjast með og reyna að uppræta vandann, en við höfum bara ekki nógu fasta stoð í lögum. Við gerum okkar besta, en erum bara að róta fram og til baka í einhverjum haug." Oddur telur að þingmenn þurfi að einhenda sér í að koma í gegn nýjum lögum fyrir jól. "Þingmennirnir okkar hafa ekkert betra að gera en klára þetta mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×