Innlent

Árlegt fjársvelti

Óli Halldórsson
Forstöðumaður Þekkingarseturs Þingeyinga segir menntamálaráðuneytið hafa verið ófáanlegt til að ræða fjárhagsvanda setursins.
Fréttablaðið/Kristján
Óli Halldórsson Forstöðumaður Þekkingarseturs Þingeyinga segir menntamálaráðuneytið hafa verið ófáanlegt til að ræða fjárhagsvanda setursins. Fréttablaðið/Kristján

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur sent Valgerði Sverrisdóttur, ráðherra byggðamála, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, þingmönnum Norðausturkjördæmis og fjárlaganefnd Alþingis áskorun þess efnis að Þekkingarsetri Þingeyinga á Húsavík verði tryggt nægilegt rekstrarfé.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til reksturs stofnunarinnar og segir Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarsetursins, að samningur um fjármögnun setursins renni út í janúar næstkomandi.

"Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur okkur ekki tekist að fá menntamálaráðuneytið að samningaborðinu og er ástandið orðið óviðunandi. Ljóst er að Þekkingarsetrið verður ekki rekið áfram á þessum forsendum en því miður hefur það gerst á hverju ári frá stofnun setursins að grípa þurfi til aðgerða að hausti til að klára fjármögnun komandi árs. Föst fjárframlög til setursins hafa ekki náð að dekka helminginn af rekstrarkostnaði stofnunarinnar," segir Óli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×