Erlent

Geimgangan gekk vel

Eftirfarandi kringumstæður þekkja allir: Farartækið varð fyrir hnjaski og til að komast á leiðarenda þarfnast það viðgerðar. Oftast má bjarga sér, en þegar farartækið er geimskutla og vandræðin eru á sporbraut, 350 kílómetra frá yfirborði jarðar, er vandinn ærinn. Soichi Noguchi og Stephen Robinson svifu út úr geimskutlunni Discovery þar sem hún var í 358 kílómetra hæð yfir Suðaustur-Asíu rétt fyrir hádegi í dag. Við tók sex og hálfrar klukkustundar geimganga þar sem æfð voru handbrögðin sem hugsanlega verða notuð til að gera við geimskutluna á sporbraut um jörðu en hún laskaðist í flugtaki. Alls fuku fjórar hitaeinangrunarflísar af henni áður en hún kom að Alþjóðlegu geimstöðinni og allar eru þær stærri en öryggisstaðlar Geimferðastofnunarinnar leyfa. Talsmenn Geimferðarstofnunar Bandaríkjanna, NASA, segja engar vísbendingar um að hætta stafi að skutlunni þrátt fyrir skemmdirnar, en halda því opnu að reynt verði að gera við hana á sporbraut. Engu að síður eru skemmdirnar áfall fyrir NASA þar sem miklum tíma og nærri því sjötíu milljörðum hefur verið eytt í viðgerðir og lagfæringar sem komu, að því er virðist, ekki að gagni. Skutluflotinn er í flugbanni þar til tekst að leysa vandann með fullnægjandi hætti. Flugstjórinn Eileen Collins hefur lýst óánægju sinni með þetta en það kemur hins vegar geimförunum um borð í Discovery ekki að gagni. Þeir eiga eftir tvær geimgöngur og um viku í geimnum áður en reynir á hvort að þeir þurfi að reyna að gera við geimskutluna og hvort að það takist að koma henni og áhöfninni heilum heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×